guided-tour-web-2.jpg

Starfsfólk

Við erum öflugur, þjónustulundaður hópur og leggjum metnað okkar í að svara spurningum gesta og miðla fróðleik um jarðhitanýtingu á Íslandi.

Innifalin í Orkupakkanum er leiðsögn sem hefst alla daga kl. 11:00, 12:00, 13:00, 14:00 og 15:00.

Orka náttúrunnar á og rekur Jarðhitasýninguna

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn til allra landsmanna á samkeppnishæfu verði. Við framleiðum einnig heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið. Við kappkostum að veita viðskiptavinum okkar góða þjónustu, ráðgjöf og samkeppnishæft verð.

Heimasíða Orku Náttúrunnar
on_kitchen_web_res.jpg

Í sátt og samvinnu við náttúruna

Við leggjum okkur fram við að framleiða rafmagn í sátt og samvinnu við náttúruna því við erum jú öll tengd við hana á einn eða annan hátt. Við leggjum okkur fram við að miðla þekkingu okkar og hvetjum til ábyrgrar umgengni við náttúruna. 

.

Hellisheiðarvirkjun

Hellisheiðarvirkjun var gangsett árið 2006. Jarðhitasvæði virkjunarinnar er sunnan við Hengilinn. Jarðhitavinnslan skiptist í efra virkjunarsvæði, ofan Hellisskarðs, neðra virkjunarsvæði, neðan skarðsins, og Skarðsmýrarfjall.

Uppsett afl Hellisheiðarvirkjunar er 303 MW í rafmagni og 133 MW í varmaafli en miðað við full afköst gæti varmastöðin stækkað í 400 MW í framtíðinni og mun það gerast í tveimur til þremur áföngum eftir þörf á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.

hellisheidarvirkjun_web_res.jpg
hengill_web_res.jpg

Hengilssvæðið

Hengilssvæðið er á meðal stærstu háhitasvæða á Íslandi og tengist þremur eldstöðvakerfum. Jarðhitinn í Reykjadal og Hveragerði tilheyrir elsta kerfinu, svonefndu Grensdalskerfi. Norðan þess er eldstöð kennd við Hrómundartind sem gaus síðast fyrir um 10 þúsund árum. Þeirri eldstöð tengist jarðhiti á Ölkelduhálsi. Vestast og yngst er Hengilskerfið.

Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun eru innan Hengilskerfisins. Frá ísöld hefur nokkrum sinnum gosið í Hengilskerfinu. Fyrir um tvö þúsund árum rann Nesjahraun úr Kýrdalssprungu við Nesjavelli

Gönguleiðir

Á Hengilssvæðinu er flest það sem prýðir íslenska náttúru: áhugavert landslag, hvera- og gígasvæði, fjölbreytt gróðurfar, ár og stöðuvötn. Mikil vinna er lögð í frágang og landgræðslu á röskuðum svæðum vegna framkvæmda við Hellisheiðarvirkjun á líkan hátt og gert var á Nesjavöllum á sínum tíma.

Gönguleiðakort
hiking_map_web_res.jpg
architectures_web_res.jpg

Byggingin

Framkvæmdum við fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar lauk árið 2006. Áhersla var lögð á sveigjanleika í hönnun. Um er að ræða stærstu jarðvarmavirkjun í heimi (single-site).

Hugmyndafræðin

Hugmyndin að baki formi bygginganna er sótt í jarðfræði Íslands, þar sem jarðlagastaflarnir halla inn að flekaskilum í miðju landsins. Þannig hallar gestaskálinn og vélasalirnir á móti hver öðrum og endurspegla þannig ástandið í iðrum jarðar þaðan sem orkan sem knýr virkjunina kemur. Nefið eða spjótið yfir gestainnganginum er einnig hugsað sem tenging við aðra orkustöð og stefnir á Snæfellsjökul. Hönnun landslags á svæðinu hefur mikilvægu hlutverki að gegna og er bæði ætlað að stuðla að nýsköpun og undirstrika vistvænar lausnir. Vinnslurásin er byggð á stöðluðum einingum þannig að hægt er að bæta við einingum eftir framleiðslugetu og þörfum virkjana svæðisins.